Íslenski fjárhundurinn barst hingað til lands með landnámsmönnum og aðstoðuðu hundarnir við gæslu og smölun fjár, nautgripa og hesta. Hundakyn sem líkjast íslenska fjárhundinum nokkuð finnast í nágrannalöndunum en blóð úr íslenskum hundum hefur verið rannsakað og benda niðurstöður til þess að íslenski fjárhundurinn sé ættaður frá Norðurlöndunum (Stefán Aðalsteinsson 1998:79; Stefán Aðalsteinsson 2005:9).
Vorið 1983 var blóð úr 56 íslenskum fjárhundum kannað til að rannsaka uppruna kynsins. Niðurstöðurnar sýndu greinilegan skyldleika milli íslenska fjárhundsins og finnsks hundakyns, karelísks bjarnarhunds (Karelian Bear Dog / karelsk björnhund). Karelíski bjarnarhundurinn er uppruninn í Rússlandi og er einn svokallaðra Laika-hunda en þessir hundar hafa upprétt eyru og hringað skott (Stefán Aðalsteinsson 2005:9; Stefán Aðalsteinsson 2004:26).
Með ofangreint í huga er ljóst að íslenski fjárhundurinn hefur borist hingað frá Noregi en skyldleikinn við karelíska bjarnarhundinn bendir sömuleiðis til þess að til Noregs hafi hundurinn komið úr austri, rétt eins og íslenska kúakynið (Sömu heimildir).
Litlar heimildir eru til um hunda frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi. Engar lýsingar eru á fjárhundum í Íslendingasögum og þar er sömuleiðis mjög lítið að finna um hunda almennt. Þó eru til lýsingar á einstökum hundum sem skáru sig frá öðrum hundum og má þar nefna Sám hans Gunnars á Hlíðarenda en talið er að hann hafi verið írskur úlfhundur. Bein af stóru hundakyni hafa fundist á Grænlandi og er jafnvel talið að það sé af írskum úlfhundum (Deild íslenska fjárhundsins 2005; Gísli Pálsson 1999:5; Stefán Aðalsteinsson 1998:79).
Mikil hungursneyð var á Íslandi í kringum 990 og var lagt til að flestum eða öllum hundum í landinu yrði lógað því bjarga mætti fjölda mannslífa ef ekki þyrfti að fóðra hundana. Íslenskir hundar voru vinsælir til útflutnings á miðöldum, sérstaklega til Bretlands þar sem þeir voru vinsælir heimilishundar fyrirfólks. Árið 1492 skrifar Marteinn Beheim að Íslendingar selji hunda sína dýrt en gefi börnin svo þau fái mat (Deild íslenska fjárhundsins 2005; Gísli Pálsson 1999:5; Icelandic Sheepdog International Comittee 2005).
Árið 1555 skrifaði Olaus Magnus að íslenskir hundar séu vinsælir hjá prestum og aðalsfrúm. Hann lýsir hundinum jafnframt sem ljósum eða hvítum og með þykkan feld. Árið 1570 segir John Caius að íslenskir hundar séu í sérstöku uppáhaldi hjá fyrirfólki Bretlands og segir hundana svo loðna að varla megi greina höfuð frá búk. Í leikriti Shakespares „Hinrik V“ sem skrifað var um 1600 er íslenskur hundur nefndur. Thomas Brown skrifar árið 1650 að íslenskir hundar séu ekki einungis fluttir til Bretlands sem fjölskylduhundar heldur sæki enskir fjárbændur einnig mjög í þá (sjá Deild íslenska fjárhundsins 2005 og Gísla Pálsson 1999:5).
Oddur Einarsson segir frá fjórum gerðum hunda á Íslandi árið 1590, þ.e. bæjarhundum eða varðhundum, fjárhundum, dekurhundum sem leika listir og veiðihundum sem notaðir voru til refaveiða. Oddur segir fjárhundana vera mjög áfjáða við rekstur sauðfjár (sjá Stefán Aðalsteinsson 1981:99).
Count de Buffon skrifar um þekkt hundakyn árið 1755 og er íslenski hundurinn einn þeirra 30 kynja sem þar er fjallað um. Til er málverk frá 1763 sem sýnir íslenskan hund sem var fæddur í Dantzig árið 1759 (sjá Gísla Pálsson 1999:5-6).
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson lýsa íslenska hundinum vel í ferðabók sinni en þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757. Þeir nefna þrjár gerðir hunda á Íslandi. Þar ber fyrst að nefna fjárhunda sem voru allir loðnir og sumir mikið loðnir. Fjárhundarnir voru ekki einungis notaðir sem fjárhundar heldur einnig til annarra verka, s.s. að sækja lunda í holurnar. Þeir segja jafnframt að fjárhundarnir fari fyrir fé og komi með það til smalans. Hindar tegundirnar tvær voru dverghundar sem höfðu mjög stutt skott og háfættir, snöggir veiðihundar (sjá sömu heimild:6 og Deild íslenska fjárhundsins 2005; Eggert Ólafsson 1981:32-33). Veiðihundar eða dýrhundar fundust hér á landi allt fram á 16. og 18. öld en líklega dóu þeir út seint á 18. öld, e.t.v. í móðuharðindunum (Stefán Aðalsteinsson 1998:79).
Í flestum ferðabókum sem skrifaðar eru um Íslands frá þessum tíma og fram á 20. öld er minnst á íslenska hunda. Lýsingarnar eru nokkuð mismunandi en samt er augljóst að hér er um sama hundakyn að ræða. Hundarnir eru sagðir í sveitum, þeir reka búfé úr túnum, smala fé, reka hross og finna fé í fönn. Á þessum tíma er sagt að fyrir góða hunda megi frá hestsverð (Deild íslenska fjárhundsins 2005; Gísli Pálsson 1999:6; Watson 1956).
Áður fyrr var algengt að hafa marga hunda á hverjum bæ enda var þörfin fyrir þá mikiil þegar fé var rekið, hvort sem það var til beitar að morgni og heim að kvöldi eða til lengri smalamennsku vor og haust (Stefán Aðalsteinsson 1981:99).
Árið 1869 er talið að fjöldi hunda á Íslandi hafi verið um 24 þúsund en 1883-1887 er talið að fjöldinn sé í kringum 10 þúsund (Deild íslenska fjárhundsins 2005; Gísli Pálsson 1999:6). Skýring þessa mikla munar er að árið 1869 voru sett lög varðandi hundahald og 1871 var settur hár skattur á alla hunda nema ákveðinn fjölda fjárhunda á sveitabæjum. Ástæða setningu þessara laga er að hundar hýsa egg bandorma sem veldur sullaveiki í fólki og höfuðsótt í sauðfé. Eftir þetta fækkaði hundum mjög hér á landi en taka skal þó fram að almennur skortur á hreinlæti er talinn hafa verið höfuðorsök hættunnar sem stafaði af sullaveikinni (Sömu heimildir; Stefán Aðalsteinsson 1981:86).
Erlend hundakyn voru flutt inn á 19. öld og um aldamótin 1900 hefur íslenskum fjárhundum fækkað mikið. Christian Schierbeck ferðaðist mikið um landið á þessum árum og telur hann að þá hafi íslenskir hundar, sem ekki höfðu blandast öðrum kynjum, eingöngu fundist á afskekktum bæjum til sveita. Á tveggja ára ferðalögum um Ísland sá Schierbeck varla meira en 20 einkennasterka hunda fyrir utan þann sem hann átti sjálfur. Schierbeck hrósar íslenska fjárhundinum mikið, segir kynið hafi mikið áttaskyn sem gagnist mjög vel þegar fé er rekið af fjalli á haustin. Hann segir hunda þekkja hvert fé í flokknum og séu svo ómissandi fyrir fjallmenn að eftir farsóttir á síðari hluta 19. aldar sem drápu meira en þrjá fjórðu allra íslenskra hunda var jafnvel borgað hestsverð og tvær kindur fyrir góðan hund. Þess ber að geta að árið 1901 var sett algjört bann við innflutningi hunda (sjá Deild íslenska fjárhundsins 2005; Gísla Pálsson 1999:6 og Watson 2005).
Á síðari hluta 19. aldar voru gerðar tilraunir með þjálfun íslenskra fjárhunda sem þjónustuhunda í hernum í Danmörku. Hundarnir flutti skilaboð milli herdeilda og reyndust vel þó tilraunirnar hafi lagst af og hundarnir farið til annarra eigenda. Íslenskir fjárhundar voru fyrst sýndir á hundasýningu í Tívolí í Kaupmannahöfn árið 1897 en þrír hundar voru sýndir á sýningunni. Íslenski hundurinn var viðurkenndur sem sérstakt ræktunarkyn í Danmörku árið 1898 og enska hundaræktarfélagið (English Kennel Club) ættbókfærði íslenskan hund árið 1905. Um leið viðurkenndi félagið íslenska fjárhundinn sem sérstakt kyn í Englandi og gaf út ræktunarmarkmið sem var þýtt úr dönsku. Þó munu íslenskir hundar sjaldan hafa verið sýndir á sýningum í Englandi en reyndar náði íslenskur hundur þeim árangri að keppa um titilinn „Besti hundur sýningar“ á Crufts árið 1960 (Sömu heimildir; Watson 1956; Palmer 1985:94).
Íslandsvinurinn Mark Watson ferðaðist mikið um landið. Á fyrstu ferðunum sem hann fór um ísland í kringum 1930 sá hann allnokkuð af íslenskum hundum út um sveitir en í kringum 1950 voru íslenskir hundar svo að segja horfnir nema á afskekktum stöðum, s.s. í Breiðdal á Austurlandi þar sem 90% hundanna sýndu enn öll einkenni kynsins. Ljóst er að á þessum tíma var kynið í mikilli útrýmingarhættu (Deild íslenska fjárhundsins 2005; Gísli Pálsson 1999:7; Icelandic Sheepdog International Comittee 2005; Watson 1956; Stefán Aðalsteinsson 2004:26).
Watson ákvað að flytja nokkra hunda og tíkur til Kaliforníu og rækta kynið svo það yrði ekki aldauða. Yfirdýralæknir, Páll A. Pálsson, aðstoðaði hann við útflutninginn en eftir hjá Páli varð tík sem kom frá Vestfjörðum. Fljótlega eftir að hundarnir komu til Kaliforníu kom upp hundapest og drápust sumir hundanna. Þeir sem lifðu eignuðust afkvæmi og virtust ekki hafa blandast öðrum kynjum. Watson fluttist seinna til Englands og tók hundana með sér og lét halda ræktuninni áfram. Það tók Breta hins vegar ekki langan tíma að breyta útliti hundsins í þá átt sem þeim þótti fallegt og urðu hundarnir stuttir, kubbslegir og smábeinóttir (sjá sömu heimildir; Palmer 1985:94).
Páll A. Pálsson varð fyrstur íslendinga til að skynja þá hættu sem steðjaði að íslenska fjárhundinum og lét rækta undan tíkinni sem hafði orðið eftir á Keldum. Einnig veitti Landbúnaðarráðuneytið styrk til þess að hefja skipulega ræktun íslenskra hunda í Hveragerði (Deild íslenska fjárhundsins 2005).
Árið 1967 hóf Sigríður Pétursdóttir á Ólafsvöllum (Skeiða- og Gnúpverjahreppi) mikið ræktunarstarf í samvinnu við Páll A. Pálsson. Sigríður hafði auk þess samstarf við Watson og fleiri aðila í Bretlandi og fékk þaðan ómetanlega aðstoð og upplýsingar. Fyrstu hundar Sigríðar voru allmikið skyldir og fékk hún leyfi til að flytja til Íslands tvo íslenska hvolpa frá Bretlandi sem Watson gaf henni enda var ræktunarstofninn ansi fátæklegur á þessum tíma. Út frá mjög fáum hundum hóf Sigríður brautryðjendastarf á ræktun íslenska fjárhundsins (Sama heimild; Gísli Pálsson 1999:8-9).
Árið 1969 var Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) stofnað en einn markmiða þess er að vernda og rækta íslenska fjárhundinn og fékk félagið seinna aðild að alþjóðahundaræktarsamtökunum FCI og hundaræktarsamtökum Norðurlandanna NKU. Starfsemi Hundaræktarfélagsins hefur breyst nokkuð með árunum og í dag er það samstarfsvettvangur eigenda og áhugafólks ýmissa hundakynja. Þess ber þó að geta að deild íslenska fjárhundsins er enn þann dag í dag stærsta deild félagsins (Sama heimild:9; Hundaræktarfélag Íslands 2005).
Deild íslenska fjárhundsins (Díf) var stofnuð 1979 og ber ábyrgð á varðveislu og ræktun kynsins í umboði stjórnar Hundaræktarfélags Íslands (HRFÍ). Árið 1996 hafði Guðrún R. Guðjohnsen, þáverandi formaður HRFÍ og díf, frumkvæði að stofnun alþjóðlegra samtaka um ræktun íslenska fjárhundsins á alþjólegum vettvangið. Samtökun bera yfirskriftina ISIC en skammstöfunin stendur fyrir Icelandic Sheepdog International Comiitee. Auk Íslands eru Danmörk, Finnland, Noregur, Svíþjóð, Holland og Þýskaland aðilar að samtökunum, auk þess sem Kanada og Bandaríkin taka þátt í samstarfinu (Gísli Pálsson 1999:10; Icelandic Sheepdog International Comittee 2005).
Vinsældir íslenska fjárhundsins hafa aukist á síðustu árum og þó stofninn sé ekki stór þá er kynið ekki lengur í útrýmingarhættu. Árlega fæðast um 100 hvolpar á Íslandi og er nokkur hluti þeirra fluttur út, bæði til Evrópu og Norður-Ameríku (Deild íslenska fjárhundsins 2005).
Hollenskur erfðafræðingur, Pieter Oliehoek (1999:5, 33), rannsakaði skyldleikarækt í heildarstofni íslenska fjárhundsins allt frá því að skipuleg ræktun hófst árið 1967 og til 1999. Hann segir mikla minnkun á erfðabreytileika í stofninum yfirvofandi. Allir íslenskir fjárhundar sem til eru í dag eru afkomendur 23 óskyldra hunda en gen úr þremur þessara hunda eru yfirgnæfandi í genamengi stofnsins. Fjöldi samsæta (alleles) hefur fallið gríðarlega og þessir þrír stofnendur hafa lagt 80% af mörkum til núverandi stofns. Oliehoek komst jafnframt að því að ekki er mögulegt að jafna framlag stofnendanna.
Rannsókn Oliehoeks (1999:33, 39) leiddi í ljós að íslenski fjárhundurinn hefur ekki orðið fyrir miklum áhrifum vegna skyldleikaræktunar gegnum tíðina og hefur skyldleikaræktin t.d. ekki haft veruleg áhrif á gotstærð. Hann tekur hins vegar fram að þó kynið hafi staðist mikla skyldleikarækt þá sé mikilvægt að viðhalda þeim erfðabreytileika sem finnst í stofninum, annars er hætta á að aðlögunarhæfni kynsins skerðist og ýmis sjúkdómsvaldandi gen festi sig í sessi. Oliehoek leggur því mikla áherslu á að viðhalda litlum fjölskylduhópum en jafnvel minnstu fjölskyldurnar hafa allt að 60% gena sinna frá þremur algengustu stofnendunum.
Svipur íslenska hundsins er oft brosleitur og er öruggt og fjörlegt fas einkennandi fyrir íslenska fjárhundinn. Íslenski fjárhundurinn er úthaldsgóður smalahundur sem geltir og nýtast þeir eiginleikar við rekstur os smölun búfénaðar úr haga eða af fjalli. Þetta er glaður og vingjarnlegur hundur með ljúfa lund, forvitinn og óragur við vinnu. Kynið hentar vel til margra starfa en flestir hundarnir eru þó heimilishundar í dag. Íslenskir hundar hafa verið þjálfaðir til snjóflóðaleitar bæði hér á landi og erlendis og íslenskir fjárhundar hafa einnig verið þjálfaðir sem meðferðarhundar með einhverfum börnum. Þar til viðbótar eru íslenskir fjárhundar að sjálfsögðu enn notaðir við smalamennsku og við leit að týndu fé í fönn. Við smalamennsku nýtist þefskyn hundsins vel og í slæmu skyggni rennur hann á lykt af fé og finnur þó maðurinn sjái það ekki. Þefskyn hundsins nýtist einnig vel til eggjaleitar og íslenskum hundum hefur verið kennt að leita einungis eftir eggjum ákveðinna tegunda fugla.
Texti: Þorsteinn Thorsteinson vorið 2005
Deild íslenska fjárhundsins. 2005. 26. mars. Vefslóð: http://www.simnet.is/dif.
Eggert Ólafsson. 1981. Ferðabók Eggert Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Um ferðir þeirra á Íslandi árið 1752-1757. 1. bindi. Jón Eiríksson og Gerhard Schöning bjuggu frumútgáfuna til prentunar. Steindór Steindórsson þýddi árið 1942. Bókaútgáfan Örn & Örlygur, Reykjavík.
Gísli Pálsson. 1999. Íslenski fjárhundurinn. Bókaútgáfan á Hofi.
Hundaræktarfélag Íslands. 2005, 26. mars. Vefslóð: http://www.hrfi.is.
Icelandic Sheepdog International Comittee. 2005, 26. mars. Vefslóð: http://www.icelanddog.org/.
Oliehoek, Pieter. 1999. Inbreeding, Effective Population Size, Mean Kinship and Cluster Analysis in the Icelandic Sheepdog as a Small Population. Wageningen.
Palmer, Joan. 1985. Stóra hundabók Fjölva. Íslensk ritstjórn og meðhöfundur Þorsteinn Thorarensen. Fjölvaútgáfan, Reykjavík.
Stefán Aðalsteinsson. 1981. Sauðkindin landið og þjóðin. Bjallan, Reykjavík.
Stefán Aðalsteinsson. 1998. „Uppruni íslenskra húsdýra“. Um landnám á Íslandi. Fjórtán erindi. Ráðstefnurit V, bls. 73-80. Guðrún Ása Grímsdóttir sá um útgáfuna. Vísindafélag Íslendinga, Reykjavík.
Stefán Aðalsteinsson. 2005, 12. janúar. „Særtrekk hos islandske husdyr“. Nordisk genbank husdyr. Vefslóð http://www.nordgen.org/nordenshusdyr/nordenshusdyr.htm.
Watson, Mark. 1956. The Iceland dog. A Research on the ICELAND DOG (also known as the Icelandic Sheepdog). Wensum Kennels, Nicasio, California.