Fundargerðir


27.09.2017

Fundur félagsmanna DÍF um endurskoðun á ræktunarmarkmiði íslenska fjárhundsins haldinn í Sólheimakoti þann 27. september 2017 kl. 20:00.

 

Fundargestir voru 18, auk fundarstjóra, stjórnar DÍF og nefndar um endurskoðun ræktunarmarkmiðsins – samtals 27.

Margrét Bára Magnúsdóttir formaður DÍF setur fundinn og skipar Herdísi Hallmarsdóttur formann HRFÍ fundarstjóra og Arnfríði Ingu Arnmundsdóttur ritara DÍF fundarritara. Síðan les Margrét Bára samantekt um þá vinnu sem liggur að baki þessari endurskoðun á ræktunarmarkmiðinu.

Guðni Ágústsson fyrrum formaður DÍF kynnir drög að endurskoðun á ræktunarmarkmiðinu þar sem hann ber saman núgildandi markmið og drög að endurskoðuðu markmiði (sjá glærukynningu á heimasíðu DÍF).

Eftir kynningu Guðna útskýrir fundarstjóri vinnubrögð FCI. Þeir eru með ákveðnar kröfur um uppsetningu ræktunarmarkmiða og eru með módel frá 2016 með uppsetningu kafla sem við þurfum að fara eftir. Þeir færa til kafla í ræktunarmakmiðinu ef á þarf að halda til að halda rétta forminu. Síðan gefur fundarstjóri orðið til fundargesta og biður þá að koma upp í pontu og kynna sig.

 

Umræður um ræktunarmarmiðið:

Arna Rúnarsdóttir: Hún spyr af hverju blá augu séu talinn galli?

Þorsteinn Thorsteinson: Hann telur dökk augu mikilvæg, því þau gefa íslenska hundinum svipinn sinn.

Stefanía Sigurðardóttir svarar því að við séum með mikla breidd í litum og hægt væri að rækta saman „diluted“ hunda sem geta þá gefið blá augu. Blá augu geta meðal annars fylgt þegar hundur er mikið hvítur og einnig heyrnarleysi. Stefanía segir að það sé leyft í sumum tegundum, öðrum ekki.

Margrét Bára segir að þetta sé nýtt fyrirbæri í íslenska fjárhundinum, hundarnir eigi að vera með sterkt „pigment“ en bláum augum fylgi húðlitt „pigment“.  

Örnu finnst þetta flott og vill leyfa þetta. Stefanía vill ekki að fólk sé að leika sér með nýja liti. Margrét Bára bendir á að hestar með blá augu sjái oft ekki vel. Herdís segir að blá augu fylgi oft merle litnum.

Rúna Helgadóttir: Skilur ekki af hverju „hvelfdur hnakki“ sé tekið út. Varðandi sporana spyr hún af hverju það sé boðið upp á mistúlkun í markmiðinu, af hverju það sé notað orðið æskilegt, en ekki að þeir eigi að vera tvíspora. Henni finnst að annaðhvort eigi hundurinn að vera tvíspora eða hann geti verið einspora eða tvíspora. Telur það bjóða upp á mistúlkun að hafa orðið æskilegt með.

Rúna spyr einnig af hverju það standi ekki að hundar megi ekki vera bröndóttir.

Helga Andrésdóttir svaraði því að bröndótti liturinn væri ekki til í tegundinni.

Þorsteinn: Varðandi bröndótta litinn, FCI módelstandardinn segir að ef galli þekkist ekki í tegund eigi hann ekki að vera í standard, og bröndótt þekkist ekki í tegundinni. Varðandi hvelfda hnakkann var orðalagið að vefjast fyrir nefndinni sem fannst það ekki nógu gott en hann óskar eftir tillögum á þýðingu á „slightly arched“ sem stendur í ensku útgáfunni.

Stefanía svarar spurningunni um sporana. Þetta sé umræða sem hefur verið lengi, en flestir séu sammála því að sporarnir séu fastir í tegundinni, og ekki eigi að draga hund niður sem er einspora. Hún segir að ekkert eitt sé best, einspora er best, tvíspora er best og alspora er best, en æskilegt er að hundurinn sé tvíspora í ræktun.

Linda Laufey Bragadóttir tekur til máls og spyr af hverju orðið alspori sé tekið út?

Stefanía talar um að ekki sé til ensk þýðing á orðinu alspori.

Linda Laufey vill að orðið „alspori“ sé notað í ensku útgáfunni.

Þorsteinn útskýrir að hægt sé að hafa það inni í íslensku útgáfunni en FCI muni ekki samþykkja það í ensku útgáfunni.

Stefanía útskýrir að stundum séu til tegundartýpísk heiti sem notuð séu innan tegunda sem ekki væru notuð í ræktunarmarkmiðum.

Helga sagði að það væru til íslensk orð yfir liti sem ekki eru til á ensku sem eru sett í sviga í íslensku útgáfunni og það mætti skoða að gera það sama með alspora orðið.

Arna vill vekja athygli á því að ekki sé hægt að taka út góð og gild íslensk orð til að þóknast FCI.

Þorsteinn spáir í það hvort hægt sé að hafa þetta bara í íslensku útgáfunni.

Linda Laufey vill að þetta sé líka í ensku útgáfunni, til þess að dómarar skilji alspora hunda.

Herdís útskýrir ferlið við að fá markmiðið samþykkt og segir að mögulegt sé að FCI stoppi slíkt ósamræmi.

Stefanía: Ekki má rugla saman þessari vinnu sem er bundin af FCI og svo skýringum við markmið. Compendium/skýringar sé vettvangur fyrir svona útskýringar. Þar væri hægt að lýsa ítarlega sporum, lögun þeirra og gerð. Þar væri hægt að vera með teikningar.

Kristín P. Birgisdóttir: Ef alsporar breyta stöðu á hundinum þarf að útskýra það í skýringum að hundar geti verið útskeifir vegna spora.

Stefanía segir að dómarar eigi að þekkja það hvaða áhrif sporar hafi á hreyfingar.

Kristín talar líka um stærð á eyrum, margir hundar séu með of stór eyru, næstum eins og á schäfer. Hún spyr hvort það eigi að útskýra eyrun í skýringum? Hún spyr einnig hvort hundar sem ná ekki hæð séu bara rusl?

Stefanía: Standardinn segir að eyru eigi að vera í meðallagi stór, og verður það skýrt í skýringum. Búið er að þrengja rammann í drögunum og tilgreina betur stærð, lögun og staðsetninguna á eyrunum. Það á ekki að vera hægt að misskilja hann.

Stefanía: Varðandi stærðina útskýrir hún að hæðin sé viðmiðunarhæð, þannig að frávik hæðar geta verið frjálsleg. Leiðin að því að þrengja þau er að hafa plús mínus 2 cm. Þá eru frávikin alvarlegri.

Helga segir að með því að setja inn 2 cm frávik þá séu t.d. 3 cm orðnir alvarlegri.

Kristín spyr hvort markmiðið sé fyrir sýningar eða undaneldi og fær svar frá stjórn að það sé fyrir hvort tveggja.

Elma Cates: Er sátt við flestar breytingarnar, en hefur áhyggjur af því að ef alspora er tekið út hafi það slæm áhrif. Útlendingar sem kaupendur fari eftir markmiðinu og telji að alspora sé galli. Hún veltir því fyrir sé hvort litirnir séu útskýrðir í litakaflanum.

Helga segir svo vera.

Elma: Varðandi hæðina er ekki talað um plús og mínus og hún veltir því fyrir sér hvort æskilegt sé gott orð og hvort hægt sé að finna annað orð og stingur upp á ákjósanlegt. Hún spyr einnig hvort skýringar fylgi hæðarviðmiðinu.

Þorsteinn: Það stendur að hundar megi vera tvíspora að framan, það útskýrir alspora hunda. Varðandi hæðina segir hann að viðmiðinu hafi verið breytt frá 1987 vegna þess að það hafi verið of vítt, en kallar eftir hugmyndum. Á ensku er orðið „ideal“ notað yfir hæðina.

Linda Laufey spyr hvort ekki sé skjalaþýðandi sem taki þátt í vinnunni við endurskoðunina.

Þorsteinn bendir á að skjalaþýðendur þekki ekki endilega rétta tungumálið í hundaheiminum.

Stefanía segir varðandi hæðina að á sínum tíma hafi tegundin ekki verið komin lengra en svo að hægt hafi verið að þrengja mörkin á kostnað týpunnar. Hún telur að hundar séu oftar tegundartýpískir í lægri mörkum, ekki séu margir of stórir hundar tegundartýpískir. Kominn sé tími á að ákveða hvernig við viljum halda hundinum til frambúðar.

Margrét Bára tekur til máls um spora og telur að hundur þurfi ekki að vera útskeifur þó að hann sé alspora.

Linda Laufey er ekki sammála, segir að rannsóknir sýni annað og að alspora hundur sé með annan miðpunkt.

Stefanía segir að Lundahundur eigi að vera alspora og eigi að vera aðeins útskeifur. Hún segir að íslenskur hundur eigi að vera með beinar fætur.

Guðný Halla Gunnlaugsdóttir: Telur mikið í húfi og stutt í 6. október. Enginn hefur safnað saman sögu hundsins. Núna er tækifæri til að finna gamlar myndir af íslenskum hundum.

Hárafar: Henni finnst miður að missa vatnsfælinn feld, telur að sumir hundar verði of blautir og finnst það skipta míklu máli að halda þessu inni. Hún er ósátt við orðið veðurþolinn.

Fimur: Guðný Halla vill ekki að það orð sé tekið út, það sé mikilvægt að hundar séu fimir og liprir. Stutt sé í geltið hjá stirðum hundum og hún gaf útskýringar á merkingu orðanna. Henni finnst mikill munur á fimur og kvikur.

Hálsinn: Búið er að taka út orðið hvelfdur og núna er hálsinn bara reistur. Hún hefur áhyggjur af því að það geti verið á kostnað brjóstkassans og vill ekki hjartalaga háls á íslenska hundinn.

Stærð: Henni finnst stærðarviðmiðin einföld og góð í markmiðinu frá 1987 og hefur áhyggjur af því að núverandi viðmið muni stækka tegundina of mikið.

Gul augu: Hún gerir athugasemd við það að ef gul augu eru útilokuð sé verið að útiloka mórauða hunda. Hún vill skoða að leyfa gul augu í mórauðum hundum. hún er með tík með gulgræn augu sem skiptir um feldlit á veturna.

Stefanía: Þakkar fyrir athugasemdirnar og segir að búið sé að ræða hálsinn og stærðina.

Þorsteinn: Segir að í núgildandi markmiði á ensku standi: bera hálsinn hátt, eða „carrying the head high“, verið að sé að leiðrétta í „carrying the head well“ í ensku útgáfunni.

Stefanía svarar athugasemdinni við gul augu. Hún segir að það sé í lagi að augu séu ljósari með mórauðum feldlit, en það þekkist líka í öðrum litum að augun séu of ljós. Það tengist ræktun að passa að augu séu í réttum lit. Svartur hundur á t.d. ekki að vera með ljós og jafnvel rauðleit augu. Við viljum hafa dökkt „pigment“ og dökk augu. En mórauða geninu fylgja ljósari augu. Hún telur rétt að halda sig við þessa liti. Stefanía segir að þó að mórauðu hundarnir séu með ljósari augu séu þau ekki rafgul og Guðný eigi sjálf mórauðan hund með mjög góðan augnlit.

Helga segir að mórauðir hundar séu þeir einu sem upplitist í sólinni á sumrin.

Arna: Telur að það eigi að vera plús mínus 2 í stærðarfrávikum, allar tegundir séu að stækka, sem er til vandræða og erfitt að taka til baka þegar tegundin er orðin of stór. Íslenskur hundur á að vera aðeins minni en meðalstór hundur segir hún.

Stefanía svarar því að búið sé að ræða þetta, en greinilegt sé að fólk hafi áhyggjur af þessu. Það erfiðasta sé að rækta framúrskarandi hund í réttri stærð. Við þurfum að hugsa um það hvernig tegundin þróast. Við erum með arf í höndunum sem við berum öll ábyrgð á sem ræktum íslenska fjárhundinn.

Linda Laufey telur að ef stórir hundar vinni oft á sýningum fari viðmiðið hjá fólki að breytast.

Stefanía: Erfðafræðingar segja að auðveldara sé að stækka hundategundir en minnka.

Helga segir að sem ritari á sýningum til margra ára hafi hún séð og að mati dómara sé algengara að hundar séu of litlir en of stórir.

Kaffihlé:

Herdís tilkynnir að umræður verði til hálf ellefu og hugsanlega verði frestur til að skila athugasemdum framlengdur.

Linda Laufey: Er ósátt við að í sögunni sé sleppt að segja frá því að hundurinn hafi borist með norrænum víkingum, henni finnist það fegra lýsinguna og vera smart. Í kaflanum um heildarsvipinn er hún ósátt við orðið kröftugur, er ekki hrifinn af orðinu og vill frekar nota sterklegur.

Stefanía: Lengi hefur verið talað um að íslenskur hundur eigi að vera kröftugur og þungur á velli. Linda Laufey er ósátt við þessa breytingu. Stefanía segir að þetta styrki lýsinguna á hundinum.

Í kaflanum eiginleikar og lund vill Linda Laufey ekki að tekið sé út „af fjalli“, það lýsi hlutverki hundsins og landslaginu.

Stefanía: Segir þetta vísa til þess að hundurinn smali líka hestum og kúm, sé búsmali.

Lindu Laufeyju finnst fjallið vísa til heimalandsins.

Linda Laufey er einnig ósátt við að klausan um veiðieiginleika sé tekin út.

Þorsteinn svarar að ekki hafi allir landnámsmenn verið víkingar og varðandi veiðieðlið þá sé smalaeðlið í raun veiðieðli.

Stefanía: Sumir vilja íslenskan hund umfram aðra vegna þess að þeir hækla ekki fé (bíta). Hann á ekki að vera árásargjarn. Ef klausan um veiðieðli á að standa þyrfti að skilgreina vel veiðieðlið.

Guðni Ágústsson tekur fram að í ræktunarmarkmiði sé verið að lýsa hundinum eins og hann á  að vera en ekki eins og hann á ekki að vera.

Linda Laufey gerir athugasemd við að í endurskoðaða markmiðinu standi að það sé æskilegt að hundur sé fulltenntur og setur spurningamerki við það að gefa eftir þá kröfu um að hundur sé fulltenntur.

Stefanía svarar að íslenski fjárhundurinn sé ekki veiðihundur og því ekki mikilvægt að hann sé fulltenntur. Algengt sé að það vanti 1-2 premúlera. Hún vitnar í Sigríði Pétursdóttur frá Ólafsvöllum sem var hörð á því að ekki ætti að gera þá kröfu á íslenskan hund um að hann sé fulltenntur.

Helga útskýrir að samkvæmt FCI módel standardinum sé ekki lengur nauðsynlegt að hundur sé fulltenntur. Þetta kom inn árið 2015 hjá FCI að það megi vanta PM1 og M3 og það sé ekki endilega arfgengt.

Guðnýju Höllu finnst of miklar kröfur hættulegar.

Þorsteinn: Samkvæmt FCI er vöntun á tönnum ekki útilokandi galli (lack of teeth).

Guðný Halla: Henni finnst skottstaðan of vítt skilgreind og segir of algengt að skottið sé lafandi út á hlið. Hún spyr hvernig við getum komið því inn í standardinn að skott sé vel hringað, sumir dómarar setji jafnvel út á krók. Hún segir að aðaleinkenni íslenska hundins hafi verið lítil uppsperrt eyru og hringað skott.  Hugsanlega sé hægt að hafa hliðarskýringar, en hætt sé við að ræktendur velji bara hund sem vinnur sýningar. Hún vill ekki tapa þessum eiginleikum.

Guðný Halla er einnig með athugasemdir við skilgreiningu á lend/bóg, að afturhluti sé hallandi. Hún segir að spjaldhryggslýsingin sé ekki rétt, það vanti að hann sé ávalur. Einnig vanti að skottið sé sett upp á bakið. Herdís bendir á að skottstaðan sé komin í annan kafla.

Lindu Laufeyju finnst orðið kviður betra en undirlína og vill hafa íslenskt orð.

Guðnýju Höllu finnst vanta að hundurinn eigi að vera brosmildur.

Guðríður Þorbjörg Valgeirsdóttir bendir á að það standi mildur, greindarlegur og brosleitur svipur.

Kristín spyr: Hringað skott með krók, er það afbrigðilegt?

Stefanía svarar: Nei, ekki afbrigðilegt, en lýsingin er sú sama. Það skiptir máli að það hringist og að hringur lokist. Hún segist ekki bera ábyrgð á því að dómarar séu misjafnir.

Rúna: Telur að það verði að fá dómara til landsins sem þekki tegundina. Þegar deild í heimalandi sé með deildarsýningu ætti að gera ríkari kröfur um dómara. Herdís telur að það þurfi sér fund fyrir þetta umræðuefni.

Kristín: Telur að það þurfi að skýra þetta (krókinn á skottinu) betur fyrir dómurum.

Herdís: Þess vegna vantar skýringar við ræktunarmarkmiðið.

Linda Laufey spyr hvort dómaraskýringarnar komi um leið og markmiðið.

Stefanía svarar: Fyrst þarf að klára markmiðið og fá samþykki FCI. Ræktendur og dómarar geta gert sínar eigin skýringar en vissulega sé orðið tímabært að skýringar verði gerðar sem fylgi markmiðinu þegar að því kemur.

Guðný Halla spyr af hverju skottið sé ekki lengur loðið og er henni bent á að það sé komið á annan stað í markmiðinu.

Hafþór Snæþórsson spyr um möndlulaga augu. Hann er ósáttur við orðið og tekur upp möndlu og spyr hvort augun séu virkilega möndlulaga. Herdís sýnir skýringarmyndir úr Encycopedia of K-9 Terminology og segir að möndlulaga sé orð sem er notað í hundaheiminum yfir augu með þetta lag, en þau séu ekki eins og mandla út úr búð í laginu. Hafþór spurði einnig hvort þetta ætti við um augað eða augnumgjörðina.

Stefanía útskýrir að þetta eigi við um umgjörðina og pigmentið, að augnleðrið geti verið misbreitt og breytt löguninni á augunum.

Guðný Halla er með athugasemd við kaflann um hreyfingar, að nú standi yfirferð áreynslulítil í staðinn fyrir drjúg. Hún vill nota annað orð og finnst áreynslulítið vera letilegt, Rúna stingur upp á að bæta við t.d. orðinu kraftmikið.

Þorsteinn segir að drjúg yfirferð feli í sér hraða, sem eigi ekki endilega við.

Guðný Halla segir að spor eigi að vera langt og útskýrir að drjúgur hundur sé skrefmikill.

 

Margrét Bára lýkur fundinum með því að þakka þeim sem unnið hafa að endurskoðun markmiðsins. Hún tilkynnir að  frestur til að skila athugasemdum verði framlengdur um viku, eða til 13. október. Hún minnist einnig á að það sé stórhundakynning í Garðheimum helgina 14.-15. október, en undanfarið hafi gengið illa að manna kynningarbás deildarinnar og óskar eftir sjálfboðaliðum. Hún segir frá því að deildinni hafi ekki tekist að manna þau störf sem henni bar á septembersýningunni. Aðeins þrír deildameðlimir utan stjórnar hafi séð sér fært að vinna fyrir félagið, sem sé miður.

Fundi slitið kl. 22:36

 

Fyrir hönd stjórnar DÍF

 

Arnfríður Inga Arnmundsdóttir ritari