Fundargerðir


18.08.2008

Allir stjórnarmenn mættir

Dagskrá fundarins:

1. ISIC – hætt hefur verið við að halda næstu ISIC ráðstefnu á Íslandi sökum þess að Svíar hafa ekki efni á að koma til Íslands

Ákveðið að senda bréf til ISIC/c og allra aðildarlanda ISIC og lýsa vonbrigðum stjórnar DÍF með þessa afstöðu klúbbsins í Svíþjóð og leggja til að ráðstefnan verði haldin á Íslandi þó sænski klúbburinn hafi e.t.v. ekki tök á að senda fulltrúa. Stjórn DÍF efast um að ferðakostnaður sænska klúbbsins yrði 5 sinnum hærri yrði fundurinn haldinn á Íslandi og bendir á að DÍF hefur ekki fasta innkomu eins og flest aðildarlönd ISIC og því er ferðakostnaður DÍF ávallt mikill sé ráðstefnan haldin í Kaupmannahöfn.

2. Landbúnaðarsýningin á Hellu dagana 22. – 24. ágúst

Sérstök kynning á íslenska fjárhundinum verðum tvívegis bæði laugardag og sunnudag, um 10 mínútur í hvort skipti. Á milli kynninganna verða íslenskir hundar á staðnum svo gestir hátíðarinnar geti skoðað íslenska fjárhundinn í návígi. Reynt verður að hafa á staðnum hunda af sem flestum litum. Ágúst tekur að sér að vera þulur á kynningunni.

3. Heimasíða deildarinnar

Á heimasíðuna vantar ræktunarmarkmið íslenska fjárhundsins á pdf-formi og enska útgáfu ræktunarmarkmiðsins vantar einnig á heimasíðuna. Guðni mun setja ræktunarmarkmiðið á pdf-form og senda Þorsteini.

Rætt um framsetningu heilbrigðiskannana á heimasíðunni og hvaða framsetning sé best. Allar niðurstöður augnskoðana eru birtar á netinu en eins og þetta er gert núna þá er hætta á misskilningi.

Í nokkrum tilvikum hefur starblinda fundist í ungum hundum en þá ekki verið mögulegt að segja til um arfgengi. Flestir þessarra hunda hafa síðar greinst með alheilbrigð augu og á þessi fyrsta niðurstaða þeirra ekkert skylt við arfgenga starblindu (posterior polar cataract). Skýra þarf þetta betur á heilbrigðislistanum og setja athugasemd við fyrstu niðurstöðuna sem þessir hundar fengu.

Á listanum eru hundar sem eiga afkvæmi með staðfesta arfgenga starblindu merktir sem berar fyrir sjúkdóminn og er ákveðið að taka það út.

Á heimasíðuna vantar nánari útlistun á niðurstöðum heilbrigðisskoðana, aldrei má gleyma því hve heilbrigt kynið okkar er!

4. Anterior polar cataract

Fyrr á árinu var íslensk fjárhundstík greind með anterior polar cataract sem er arfgeng tegund starblindu sem veldur hundum þó aldrei nokkrum vandkvæðum. Samkvæmt sérfræðingum er engin ástæða til að útiloka hund með þessa greiningu frá ræktun en samkvæmt núgildandi reglum þá ætti hundur með þessa greiningu að fara í ræktunarbann. Því er nauðsynlegt að skrifa stjórn HRFÍ og biðja um að þessu verði bætt inn í ræktunarreglur sem varða íslenska fjárhundinn. Einnig ákveðið að biðja stjórn HRFÍ að fara þess á leit við sérfræðingana að þegar arfgeng starblinda finnst hjá þá sé sérstaklega tekið fram hvaða gerð starblindu sé um að ræða.

5. Mjóhundadeildin sýnir íslenskan fjárhund

Mjóhundadeildin stendur fyrir gamnikeppni (e. open show) þar sem m.a. verður hægt að sýna íslenskan fjárhund en Sigríður Pétursdóttir mun dæma kynið. Ekki verða gefnar einkunnir og er því ekki um hefðbundna sýningu að ræða. Ekki var haft samráð við DÍF um uppákomuna.

6. Næsta deildarsýning

Rætt um deildarsýningu en sækja þarf fljótlega um ef ætlunin er að halda deildarsýningu hjá DÍF á næsta ári. Rætt um möguleika á deildarsýningu laugardaginn 31. janúar. Rætt um dómara sem mögulega koma til greina.

7. Göngunefnd

Skipa þarf nýja göngunefnd hjá DÍF. Ákveðið að auglýsa eftir áhugasömum á heimasíðu deildarinnar.

Fundi slitið kl. 22:58