Fundargerðir


31.03.2016

Stjórnarfundur Deildar íslenska fjárhundsins Fundur nr. 1

 

Fimmtudagur 31. mars 2016

Maríubaugur, Grafarholti, kl. 18:30

 

Mættir eru:

Arnfríður Inga Arnmundsdóttir

Helga Andrésdóttir

Linda Björk Jónsdóttir

Margrét Bára Magnúsdóttir

Sunna Líf Hafþórsdóttir

Þorsteinn Thorsteinson

 

Dagskrá: 

Stjórn skiptir með sér verkum

Eftirfarandi verkaskipting var samþykkt samhljóða: 

Formaður: Margrét Bára Magnúsdóttir

Ritari: Arnfríður Inga Arnmundsdóttir

Gjaldkeri: Linda Björk Jónsdóttir

Meðstjórnendur: Helga Andrésdóttir og Sunna Líf Hafþórsdóttir

 

Nefndir

Ræktunarráð: Helga Andrésdóttir, Margrét Bára Magnúsdóttir og Sunna Líf Hafþórsdóttir

 

Dagatalsnefnd: Helga Andrésdóttir, Sólrún Ragnarsdóttir. 

Brynhildur Inga Einarsdóttir gefur ekki kost á sér áfram. Margrét Bára tekur að sér að tala við Unni Sveinsdóttur og kanna hvort hún gefi kost á sér áfram. 

 

Markmiðsnefnd: Guðríður Þ. Valgeirsdóttir, Guðni Ágústsson, Helga Andrésdóttir og Þorsteinn Thorsteinson

 

Ákveðið að skipta í nýja nefnd sem mun hafa umsjón með framkvæmd sýninga, kynninga eða annarra viðburða innan deildarinnar. 

Framkvæmdanefnd viðburða: Margrét Bára Magnúsdóttir og Sunna Líf Hafþórsdóttir. 

Margrét Bára mun finna fleiri til að vinna í nefndinni. 

 

Ársheftisnefnd: Linda Björk Jónsdóttir og Þorsteinn Thorsteinson munu halda áfram vinnu að árshefti fyrir 2015 en gefa ekki kost á sér í vinnu að árshefti fyrir 2016. Ákveðið að bíða með að skipa í nefndina þar til yfirstandandi vinnu við hefti síðasta árs er lokið. 

 

Umræður um göngunefnd en skipulagðar göngur lögðust af á síðasta starfsári. Rætt var um að skipuleggja taumgöngur nokkrum sinnum á ári. Helga tekur að sér að tala við Margréti Guðbjörnsdóttur sem var í göngunefnd og kannar hvort hún væri til í að starfa í þannig göngunefnd. 

 

Framsetning augnskoðana hjá DÍF

Gagnrýni hefur verið í facebook hópi deildarinnar á niðurstöður augnskoðana hjá DÍF og stjórn jafnvel sökuð um að hagræða niðurstöðum ákveðinna hunda. Stjórnin hafnar þeim ásökunum algjörlega en niðurstöður augnskoðana hafa verið færðar samviskusamlega inn í gagnagrunninn á dif.is og hafi einhver vafaatriði komið upp þá voru þau borin undir þann starfsmann skrifstofu HRFÍ sem heldur utan um niðurstöður augnskoðana. Farið var yfir niðurstöður augnskoðana fyrir nokkrum mánuðum og fært til samræmis við skilning HRFÍ og framsetning nokkurra hunda breyttist. Í dag eru athugasemdir ekki færðar inn í gagnagrunninn þar sem það skiptir ekki máli út frá ræktun hafi hundur t.d. ör á hornhimnu. Ávallt er miðað við það hvort hakað sé við þá sjúkdóma sem skimað er eftir í augnskoðunum eða ekki, sé það ekki gert þá er viðkomandi hundur skilgreindur án augnsjúkdóma. 

 

Þorsteinn hefur verið í sambandi við framkvæmdastjóra HRFÍ út af þessum ásökunum og skrifstofan hefur farið yfir skráningar DÍF í sinn gagnagrunn fyrir árið 2015. Niðurstöðunum virðist bera saman en DÍF hefur ekki tekið fram þær athugasemdir sem hundar hafa. Sá starfsmaður HRFÍ sem hefur með þessi mál að gera er í fríi þessa viku og því verður þetta skoðað nánar í næstu viku. 

 

Nokkrar umræður sköpuðust um þær alvarlegu ásakanir sem hafa verið bornar á stjórn og dónaskap nokkurra aðila. (Sjá fylgiskjal nr. 4.16.) 

Búið er að bjóða tveimur einstaklingum á fund með stjórn deildarinnar til að ræða framsetningu niðurstaðna augnskoðana og skoða niðurstöðurnar á pappír en það boð var ekki þegið. 

 

Leikreglur voru settar á facebook síðu DÍF þann 7. mars sl. Ákveðið er að senda áminningu til tveggja aðila vegna ummæla í hópum. Taka á fram í áminningarbréfinu að ef svona hegðun haldi áfram þá eigi viðkomandi á hættu að vera vísað úr hópnum. 

 

Arnfríður veltir upp þeirri hugmynd að á heimasíðu DÍF verði settur texti fyrir ofan niðurstöður augnskoðana sem útskýri niðurstöðurnar. Aðrir stjórnarmenn eru jákvæðir fyrir hugmyndinni og nokkrar umræður sköpuðust um málið. 

 

Erindi frá Þórhildi Bjartmarz – sjá fylgiskjal nr. 5.16

Þórhildur spyr út í samþykkt frá ársfundi deildarinnar á umsókn um opinbera skráningu dags íslenska fjárhundsins, hvort hún eigi að vinna að umsókn eða hvort stjórn deildarinnar vilji gera það? Ákveðið að stjórn DÍF muni sjá um umsóknina. Margrét Bára tekur að sér að tala við innanríkisráðuneytið og vinnur með Þórhildi að þessari skráningu. 

 

Þá fer Þórhildur fram á að fá að láni fyrstu fundargerðarbók DÍF í því skyni að vinna upp úr henni heimildir til að nota í fyrirlestra og/eða greinar. Umræður voru um málið og það fordæmi sem lán þessara verðmætu heimilda væri. Ákveðið að skanna fyrstu tvær bækurnar á tölvutækt form og senda Þórhildi afrit. Arnfríður tekur að sér að skanna inn elstu fundargerðarbækur deildarinnar. 

 

Umræður um það að setja þessar elstu fundargerðarbækur á safn til varðveislu. Arnfríður tekur að sér að kanna þann möguleika og hvaða safn kæmi þá helst til greina. 

 

ISIC skýrsla og ráðstefna í ágúst

Helga upplýsir að hún sé búin með skýrsluna og að einungis frágangur sé eftir. Hún mun senda skýrsluna á stjórn til yfirlesturs. 

 

ISIC/Execitive committee hefur sent drög að dagskrá ráðstefnunnar í ágúst. Athygli vekur að nefndin miðar við tvískipta ráðstefnu sem er ekki í samræmi við samþykkt síðustu ráðstefnu en þar var samþykkt að ráðstefnan í Svíþjóð yrði stutt og öll vinna færi fram í formannahópi. Þannig hefði nægt að senda einungis 1 fulltrúa frá hverju aðildarlandi á ráðstefnuna sem hefði sparað umtalsverðar fjárhæðir fyrir hvert félag. Í ljósi þessa fyrirkomulags verður DÍF að senda 2 fulltrúa í ár eins og undanfarin ár og er samþykkt samhljóða að Margrét Bára og Helga verði fulltrúar DÍF. 

 

Ákveðið var að ræða fyrirspurnir til umræðu á ráðstefnunni á næsta stjórnarfundi. 

 

Heimasíða DÍF og gagnagrunnur

Flutningi heimasíðunnar til nýs hýsingaraðila er nú lokið. Íslenskir stafir virkuðu ekki en Linda hefur lagað það. 

 

Umræður voru um hvolpalistann en á listanum eru got sem nánast örugglega eru komin með heimili. Linda mun senda pósta á viðkomandi ræktendur og kanna hvort búið sé að ráðstafa öllum hvolpunum. 

 

Umræða var um uppfærslur á gagnagrunninum en erfitt er að fá uppfærslur úr tölvukerfi HRFÍ. Stjórnarmenn eru sammála að nóg sé að uppfæra gagnagrunninn u.þ.b. tvisvar sinnum á ári. 

 

Erindi frá félagsmanni - sjá fylgiskjal 6.16

Spurt var um framsetningu á niðurstöðum augnskoðana á heimasíðu DÍF, en búið er að svara viðkomandi. 

 

Erindi frá félagsmanni– sjá fylgiskjal 7.16

Spurt var út í stigahæstu hunda deildarinnar en þessi mál voru rædd á ársfundi DÍF sem viðkomandi sótti. Miklar umræður um málið en meirihluti stjórnar DÍF samþykkti að falla frá fyrri ákvörðun og fylgja einungis stigakerfi HRFÍ fyrir síðasta árs. Ákveðið að svara fyrispurn með afsökunarbeiðni. 

Deildarsýning DÍF 11. júní n.k. 

Deildarsýning DÍF verður haldin 11. Júní n.k. við félagsheimilið Miðgarð, nálægt Akranesi. Stefnt er að svipaðri dagskrá og var á deildarsýningu DÍF 2015, útisýningu með sameiginlegum kvöldverði á staðnum um kvöldið. 

 

Margrét Bára mun verða í sambandi við dómarann, kanna með flug og aðrar praktískar upplýsingar. Einnig þarf að bóka gistingu fyrir hann þegar búið er að staðfesta flugmiða. Linda Björk tekur að sér að tala við skrifstofu HRFÍ og opna fyrir skráningu á sýninguna. 

 

Erindi frá Linn Langset fyrir NIHK – sjá fylgiskjal 8.16

Linn spyr út í liti á íslenska fjárhundinum, svarta kápu, lit á trýni/hvörmum sem og flekkótt og ríkjandi hvítar merkingar. Helga hefur samið svarbréf (sjá fylgiskjal 9.16) sem verður sent til Linn. 

 

Önnur mál

Þorsteinn les drög að bréfi til að senda stjórn HRFÍ vegna samþykktar á ársfundi DÍF um vilja fundarins um að HRFÍ muni áfram samþykkja aflestur röntgenmynda hjá OFA í Bandaríkjunum (sjá fylgiskjal 10.16). 

 

Helga talar um tölvupóst frá Bandaríska klúbbnum um ISIC-nælur fyrir sýninganúmer. Samþykkt samhljóða að DÍF muni ekki kaupa svona nælur (sjá fylgiskjal 11.16).

 

Helga talar um örmerkja- og eistnablað sem hún tók að sér að kynna á ársfundi deildarinnar. Ákveðið að senda erindi um þetta til stjórnar HRFÍ (sjá fylgiskjal 12.16).

 

Fundi slitið 23:30