Fundargerðir


03.03.2015

Ársfundur DÍF 3. Mars 2015

Síðumúla 15, skrifstofu HRFÍ kl. 20.00.

 

1. Kosning fundarstjóra.

Guðríður Þorbjörg Valgeirsdóttir formaður setur fundinn og stingur upp á Guðna Ágústssyni sem fundarstjóra. Samþykkt með lófaklappi.

2. Skýrsla stjórnar.

Guðríður Þorbjörg Valgeirsdóttir formaður les skýrsluna.

3. Reikningar.

Rúnar Tryggvason kynnir reikninga í fjarveru Margrétar Báru Magnúsdóttur gjaldkera DÍF.

Rúna Helgadóttir spyr af hverju deildin eigi svona mikinn pening. Rúnar segir að dagatalið útskýri það að stórum hluta.

Elís Stefánsson spyr hvernig gangi að innheimta auglýsingar í dagatalið. Rúnar segir það ganga ágætlega, búið sé að hafa samband við þá sem skulda og semja við flesta um uppgjör.

Orðið laust.

Guðni Ágústsson spyr hvort fjöldi skráninga hjá HRFÍ hafi verið mestur hjá íslenska fjárhundinum á sl. ári. Hann spyr einnig um rakkalistann, þar megi finna nöfn hunda sem séu alltof mikið notaðir. Hvetur stjórn til að taka til athugunar hvort ekki megi taka ofnotaða rakka af listanum.

Theresa V. Olesen spyr einnig um rakkalistann, rakkaeigendur viti ekki hvort rakkarnir þeirra séu nógu góðir til að vera á listanum. Linda Björk Jónsdóttir svarar því, að með uppfylltum skilyrðum þá  komist allir rakkar á hann.

Theresa vill meiri uppl. inn á rakkalistann, t.d. hæð og fl. Brynhildur Bjarnadóttir bendir á að skiptar skoðanir séu á meðal stjórnarmanna DÍF um það.

Theresa spyr hvort deildin geti ekki látið útbúa lítinn bækling sem verði látinn fylgja hvolpum. Þar gæti komið fram upplýsingar um deildina og hvers vegna það sé mikilvægt að heilbrigðisskoða , mjaðmamynda og augnskoða hundana.

Stefanía H. Sigurðardóttir talar um Westminster sýninguna í USA, segir þörf á auglýsingarefni um íslenska fjárhundinn og dagatalið mætti gefa út á ensku. Þorsteinn Thorsteinsson segir frá því að á uppboði hjá ISSA í nóvember 2014 , hafi verið seld nokkur dagatöl fyrir árið 2013. Einnig 1 árshefti sem hann og Linda hafi gefið á uppboðið, það seldist á um 28.000 kr.

Theresa spyr hvernig gangi að selja hvolpa, því mikið virðist vera af gotum núna. Allur gangur er á því og spunnust nokkrar umræður í framhaldinu.

Hafdís Ólafsdóttir bendir á að Ingibjörg Þengilsdóttir sé ekki lengur í göngunefnd. Í hennar stað sé komin Margrét Guðbjörnsdóttir.

4. Kosning í stjórn.

Úr stjórn ganga Guðríður Þorbjörg Valgeirsdóttir og Linda Björk Jónsdóttir, þær gefa báðar kost á sér áfram. Sunna Líf Hafþórsdóttir gefur kost á sér í stjórn.

Guðni bendir á að setja megi eitt eða tvö nöfn á atkvæðaseðilinn.

Fundarhlé á meðan atkvæði eru talin.

Guðni kynnir niðurstöðu kosninga.

40 manns höfðu atkvæðisrétt, en fleiri áhugasamir voru þó á fundinum.

Linda Björk  34 atkvæði.

Sunna Líf  23 atkvæði.

Guðríður  13 atkvæði.

Linda og Sunna eru því réttkjörnar í stjórn DÍF til næstu tveggja ára.

5. ISIC gagnagrunnurinn.

Guðni Ágústsson  kynnir. Hann útskrifaðist úr Háskólanum í Reykjavík og vantaði verkefni. Ekki er gert ráð fyrir að verkefnin komi frá nemendum sjálfum en skólanum fannst verkefnið áhugavert. Hann fékk því að gera verkefnið með þeim skilyrðum að þetta yrði fjögurra manna verkefni. Ásamt Guðna voru það Árni Sigurðsson, Rúnar Bjarnþórsson og Alexandra Mahlmann sem unnu verkefnið. Notast við gögn frá 9 löndum.

Umræður um verkefnið eftir kynninguna, gagnagrunnurinn er nú aðgengilegur á heimasíðu ISIC.

6. Skoðunarmaður reikninga.

Ingibjörg Þengilsdóttir gefur áfram kost á sér.

7. Afhending verðlaunaskjala.

Guðríður formaður afhenti verðlaunaskjöl fyrir stigahæstu íslensku fjárhunda bæði sýningar og vinna. ( Sjá ársskýrslu )

8. ISIC ráðstefnan haustið 2014.

Guðríður segir frá ISIC ráðstefnunni. Guðríður sat fund formanna og Helga Andrésdóttir fund um ræktunarmál. Brenda Bonnen hélt fyrirlestur á ráðstefnunni, þar kom fram að íslenski fjárhundurinn hefur verið notaður sem profile hundur t.d. hjá Agria. Brenda upplýsti að hundurinn væri mjög hraustur en er þó með eitt  hæsta hlutfall hundategunda af krabbameini í eistum. Fæð hunda skýrir það þó að hluta, hver hundur með eistnakrabbamein vegur svo mikið samanborið við mörg önnur hundakyn.

Jörgen Metzdorff formaður Islandshunden í Danmörku, kynnti ISIC gagnagrunninn og var mikil ánægja með að vefurinn sé orðinn aðgengilegur.

Mikið hitamál í ræktunarhópi, í ræktunarmarkmiðinu okkar stendur að mikið flekkótt sé leyfilegt en ekki æskilegt að hvítt sé ríkjandi. Wilma Roem og May Britt höfðu rannsakað að hvítum lit fylgdu sjúkdómar.

Á dagskrá bæði í formannahópi og ræktunarhópi voru sporar á íslenskum fjárhundi. Í markmiðinu okkar stendur að tvöfaldir sporar séu æskilegir en líka að sporaleysi sé alvarlegur galli. Það virðist sem sumir túlki þetta sem að það sé alvarlegur galli sé hundurinn einspora.Búið var að afgreiða þennann sporakafla í vinnu við ræktunarmarkmiðið og Guðríður segir mikil vonbrigði að þetta hafi verið sett á dagskrá á ráðstefnunni.

Þórhildur Bjarmarz spyr hvort það hafi verið í ræktunarmarkmiðum frá upphafi að hvítur ríkjandi litur væri galli. Nei , var sett inn 1999.

Jón Magnússon spyr hvort hvíti liturinn hafi verið skoðaður með rannsóknum. Guðríður upplýsir að íslenski hundurinn beri ekki þessi gen. Helga bendir á að á fundinum hafi verið talað um að vöntun á lit við eyru geti haft áhrif, en það tengist ekki flekkóttu beint. Fullt til af íslenskum hundum með hvít  eyru en enginn heyrnarlaus.

Monika Karlsdóttir spyr hvort hægt sé að mæla heyrnarleysi hér. Rúna bendir á að hún hafi verið með heyrnarlausann hvolp af annarri tegund og fór það ekki milli mála.

Guðríður segir að einnig hafi verið rætt um inngróin augnhár en í Hollandi er bannað að rækta frá þeim hundum, hollendingar ætla að sækja um undanþágu.

Á ráðstefnunni var einnig rætt um skapgerðarmat og vinnueiginleika hundsins. Bendir á að næsta haust verði haldið ISIC festival í Svíþjóð.

9. Önnur mál.

Hafdís Ólafsdóttir, í göngunefnd vill minna á göngurnar en félagar eru ekki duglegir að mæta. Linda leggur til að taumgöngum verði fjölgað og Hafdís segir að næsta ganga 15 mars verði taumganga. Hún veltir fyrir sér hvort göngurnar séu barn síns tíma. Umræður í kjölfarið.

Þórhildur Bjartmarz  segir að Víkingasveitinni hafi borist gjöf frá Fagrahvammsræktun, statíf fyrir rally. Þakkar kærlega fyrir hönd Víkingasveitarinnar.Hún minnir á Vesturfaravíking á Snæfellsnesi 4. – 6 júní. Þórhildur þakkar Guðríði fyrir hennar langa og góða starf fyrir deildina. Klappað fyrir Guðríði. Hún óskar Sunnu til hamingju með kosninguna.

Ingibjörg Þ. spyr Þórhildi hvað rally sé, Þórhildur segir það vera einfaldar æfingar. Linda spyr hvort Víkingasveitin sé með æfingar eða hvort eingöngu séu haldin mót. Þórhildur segir engar æfingar verið.

Theresa spyr stjórn hvort hægt sé að halda fundi um helgar svo fólk af landsbyggðinni sjái sér frekar fært að mæta.

Brynhildur Inga Einarsdóttir segir frá því að hún fór með ungan hund á rallymót Víkingasveitarinnar, markmiðið að hafa gaman.

Berglind Guðbrandsdóttir minnir fólk á að taka þátt í könnun um líftíma íslenskra fjárhunda sem hún stendur fyrir á fésbók.

Guðríður óskar Sunnu og Lindu til hamingju með kosninguna. Þakkar meðstjórnendum sínum fyrir frábært samstarf. Segir það hafa verið gaman og gagnlegt að vinna í stjórn og mikið verið gert. Guðríði finnst ræktun á íslenskum fjárhundi blómstra en tekur undir að nota þurfi fleiri rakka til undaneldis. Ef allt væri í réttum farvegi ættu jafn margar tíkur og rakkar að geta af sér afkvæmi. En þannig sé það ekki , verðum að viðurkenna það. Það sé löngu tímabært að ná í nýtt blóð. Við sem eigum hunda sem tengjast ákveðnum fjölskylduböndum erum í stökustu vandræðum. Það er mikið ræktað og  fjölgun á  hvolpum sem fæðast. Enn fremur aukin þátttaka á sýningum og í vinnu, hundurinn nýtur sín hvergi betur en í vinnu, Víkingasveitin okkar blómstrar. Guðríður segir bjart framundan og óskar stjórn velfarnaðar í starfi.

Fundi slitið kl. 22.35.

F.h. stjórnar

Brynhildur Bjarnadóttir – ritari.